Sala búseturéttar

Eign búseturéttar felur í sér langtímahugsun - en ef þú ákveður að selja er ferlið:

Aðeins þú sem búseturéttarhafi getur ákveðið að selja búseturéttinn, því hann er óuppsegjanlegur. Ef þú ákveður að selja er búseturétturinn uppreiknaður á grundvelli vísitölu neysluverðs.

Ósk um sölumeðferð ferlið

Þegar rétthafi ákveður að selja búseturéttinn sinn þarf hann að bóka fund á heimasíðu Búseta og velja „Ósk um sölumeðferð/Uppsögn“, smelltu hér til að fara á síðuna. Ef skráðir eigendur eru tveir verða þeir báðir að mæta á fundinn.

Á fundinum er farið yfir söluferlið og rétthafi skrifar undir skjal þar sem hann óskar eftir sölu á búseturéttinum. Seljandi fær afhent upplýsingablað um söluferlið og gátlista vegna skila á íbúð.

Skrifstofan sér um að láta aflýsa áður þinglýstum búsetusamningi rétthafa. Á bakhlið samningsins þarf að skrifa "Ósk um aflýsingu" og rétthafi skrifar nafn sitt undir.

Skrifstofan bókar starfsmann í söluskoðun og tíma hjá fasteignaljósmyndara til seljanda. Einnig er ákveðið hvenær á umsóknartíma seljandi sýnir íbúðina.

Leiðbeiningar frá Eignamyndum

Á fundinum setur seljandi fram ósk um afhendingardag á íbúðinni sem mun birtast í auglýsingunni, nema annað sé ákveðið. Athugaðu að einungis er um ósk að ræða.

Íbúðin fer svo í auglýsingu næsta mánaðar, svo lengi sem óskin um sölumeðferð á henni hefur borist með 7 virkra daga fyrirvara fyrir birtingu auglýsingar.

Söluþóknun er skv. verðskrá hverju sinni, innifalið í henni er ein úttekt, fasteignaljósmyndun, sílenderskipti, auglýsing á íbúð o.fl.

Kostnaður þegar hætt er við sölu eftir að ferlið er hafið er skv. verðskrá hverju sinni.

Athugið að ekki er hægt að hætta við sölu eftir að íbúð hefur verið úthlutað.

Upplýsingablað um sölu á búseturétt

Information regarding selling your cooperative apartment in English

Á ofangreindum fundi með Búseta, þar sem óskað var eftir sölu á búseturétti, er bókaður tími fyrir söluskoðun. Í henni fer starfsmaður Búseta yfir ástand íbúðar, athugar hvort einhverjar skemmdir hafi orðið á henni sem þarfnist viðgerðar og tekur myndir fyrir verðmat.

Seljandi verður að vera viðstaddur eða lögráða fulltrúi hans.

Í söluskoðuninni er hægt að biðja um tilboð í þrif og málningu.

Lausar íbúðir eru auglýstar fyrsta virka þriðjudag hvers mánaðar á heimasíðu Búseta sem og í Morgunblaðinu næsta fimmtudag á eftir.

Seljandi þarft að gera ráð fyrir því að sýna íbúðina og er algengast að hafa opið hús í umsóknavikunni, einnig gætir þurft að sýna á öðrum tímum. Ef þess er þörf þá gefur starfsfólk Búseta upp símanúmer seljanda, með hans leyfi.

Fyrir sýningu skiptir máli að íbúðin sé snyrtileg. Sama gildir um sameign og lóð sem seljandi og aðrir búseturéttarhafar bera ábyrgð á.

Mundu að þú ert besti sölumaðurinn fyrir þína íbúð.

Best er að það séu tveir einstaklingar frá seljanda í opnum húsum, þar sem stundum þarf að fara úr íbúð til að sýna t.d. geymslu, bílastæði eða annað í sameign.

Æskilegt er að fara yfir með væntanlegum kaupendum hvort eitthvað fylgi með íbúðinni eða sé til sölu aukalega, svo sem hillur, gardínur og skápar, svo ekki komi upp misskilningur síðar í ferlinu. Einnig ber að segja frá því ef eitthvað sérstakt fylgir ekki með, eins og t.d. hillur í geymslu.

Allt samkomulag milli kaupenda og seljanda á innbúi er á milli þeirra, Búseti sér ekki um milligöngu í þeim viðskiptum.

Umsóknarfrestur er 8 dagar frá auglýsingu.

Úthlutun íbúða fer svo fram daginn eftir þ.e. 9 dögum eftir auglýsingu. Úthlutunarlisti er birtur á heimasíðu Búseta.

Félagsmenn sem sækja um sömu íbúð á sama verði, auglýstu hámarksverði, raðast eftir félagnúmeri sínu á úthlutunarlistann, elsta félagsnúmerið raðast efst og svo koll af kolli. Ef félagsmaður býður lægra verð raðast hann á listann eftir verði ekki númeri og gæti því lent neðstur ef svo ber undir.

Ef einungis berst tilboð undir hámarki hefur seljandi rétt til að gera gagntilboð eða hafna tilboðinu alveg.

Ef engin tilboð berast á umsóknartímanum þá er íbúðin auglýst áfram og gildir þá reglan fyrstur kemur fyrstur fær óháð félagsnúmeri. Seljandi hefur þá samt rétt til að hafna tilboðum undir hámarki eða hætta við sölu.

Seljandi hefur líka möguleika á að leigja út íbúðina tímabundið, með samþykki Búseta, ef heppilegt er að fresta sölu.

Sala búseturétta gengur oftast hratt fyrir sig en getur þó verið háð árstíma og efnahagsástandi.

Ekki er hægt að draga ósk um sölumeðferð til baka eftir að úthlutun hefur farið fram.

Innan tíu daga frá úthlutun er haldinn fundur með seljanda og kaupanda á skrifstofu félagsins. Þá er ákveðinn endanlegur afhendingardagur á íbúðinni og skrifað báðir undir skjal þess efnis. Dagsetningin er samkomulagsatriði milli kaupanda og seljanda að teknu tilliti til mögulegra framkvæmda á íbúðinni. Algengt er að afhending fari fram 2 til 4 mánuðum eftir auglýsingu.

Ekki er hægt að gera ráð fyrir að kaupandi taki við íbúð strax.

Samkomulag þarf að nást milli kaupanda og seljanda um afhendingardag og mikilvægt er að báðir aðilar virði afhendingardagsetninguna. Ekki er hægt að draga ósk um sölumeðferð til baka eftir að úthlutun hefur farið fram og númeraröð á úthlutunarlistanum ræður.

Á fundinum er einnig er bókaður tími í „lokaúttekt“, sjá neðar, og kaupandi skrifar undir bráðabirgðasamning og gengur frá kaupum á réttinum.

Seljandi skilar íbúðinni til Búseta og Búseti áfram til kaupanda.

Seljandi ber ábyrgð á búsetugjaldi þar til kaupandi flytur inn og er skilavikan þar með talin. Skilavikan er sá tími sem Búseti eða seljandi hafa til að klára smávægilega hluti sem þarf að laga áður er kaupandi flytur inn.

Ef Búseti ætlar í frekari framkvæmdir á íbúðinni þá tekur Búseti yfir greiðslu á búsetugjaldi eftir að skilaviku lýkur og afhendir síðan kaupanda íbúðina.

Lokaúttekt er skil seljanda á íbúð til Búseta um leið eru allir lyklar afhentir úttektarmanni. Dagsetning fer fram allavega viku áður en kaupandi á að taka við íbúð og er yfirleitt ákveðin við undirritun bráðabirgðasamnings.

Seljandi og kaupandi eru báðir viðstaddir úttektina sem og starfsmaður Eignaumsjónar Búseta. Seljandi getur sent umboðsmann í úttekt og skal hann þá vera með skriflegt umboð. Hér er dæmi um umboð.

Seljandi getur keypt aukaúttekt, skv, gildandi verðskrá, til að fá staðfest að íbúðin standist viðmið. Þannig myndast tækifæri til að bæta ástand áður en lokaúttekt fer fram.

Almennt á íbúðin að vera heil og hrein og tilbúin fyrir nýjan kaupanda að flytja inn. Sjá nánar Leiðbeiningar við skil á íbúð hér fyrir neðan.

Leiðbeiningar við ósk um sölumeðferð og gátlisti

Málningaleiðbeiningar

Information regarding selling your cooperative apartment in English

Ef íbúð er ekki skilað á fullnægjandi hátt þá áskilur Búseti sér rétt til að lagfæra hana og hefur til þess sjö daga eftir að íbúð er afhent (áðurnefnd skilavika). Seljandi ber ábyrgð á þeim kostnaði sem hlýst af lagfæringum, s.s. vegna málunar, þrifa og skemmda.

Búseturétturinn er greiddur út í tvennu lagi, 75% viku eftir að nýr íbúi flytur inn í íbúðina og svo lokagreiðsla þremur vikum seinna. Einungis er greitt inn á reikning þess sem er á samningi.

Við uppgjör fær seljandi uppreiknað kaupverð búseturéttar að frádregnum kostnaði við sölu, uppgreiðslu búsetaláns, ef við á og lagfæringar ef einhverjar eru. Ef vanskil eru á búsetugjaldið eða seljandi keypti út málningu eða þrif er það einnig dregið frá við uppgjör.

Ef seljandi er að fara á milli búsetaíbúða má „búsetalán“ fylgja með svo lengi sem það er undir þeirri fjárhæð sem lánið má vera á nýrri íbúð.

Ef seljandi er að fara á milli búsetaíbúða þá fer uppgjör fram fjórum vikum eftir afhendingu til kaupanda.

Búseturétturinn sem þú kaupir er þitt eigið fé og í því felst þín áhætta. Rétturinn getur hækkað upp í ákveðið hámark með vísitölu neysluverðs. Rétturinn gæti einnig lækkað ef efnahagsaðstæður eru með þeim hætti.

Á félaginu hvílir kaupskylda á búseturétti sem seldur var fyrir 1. júlí 2013, sú kaupskylda er þó háð takmörkunum samkvæmt samþykktum félagsins.

Uppsagnarfrestur á þessum samningum er 6 mánuðir. Ef búseturéttur selst ekki á þeim tíma þá er hann endurgreiddur skv. samþykktum félagsins, í síðasta lagi 12 mánuðum frá uppsögn. Búseturéttarhafi ber ábyrgð á greiðslu búsetugjalds út uppsagnartímann, þ.e. í 6 mánuði.

Félagið kaupir búseturéttinn á því verði sem skilgreint er nánar í samningi, ýmist lágmarksverð eða framreiknað fast verð skv. elstu samningum.

Að öðru leyti gilda sömu ákvæði um sölumeðferð annarra búseturétta.

Leiðbeiningar við uppsögn á búseturétti