Mánaðarlegt búsetugjald, framtal o.fl.

Hér er að finna gagnlegar upplýsingar um greiðslur, framtal, vaxtabætur og fleira

Innifalið í mánaðarlegu búsetugjaldi eru afborganir lána, fasteignagjöld, hiti, hússjóður, húseigendatrygging, brunatrygging, þjónustugjald og viðhaldssjóðir. Allur rekstur er innifalinn nema rafmagn í íbúðinni.

Hluti gjalda er háður ákvörðun húsfélagsins. Þá geta reglur félagsins einnig breyst sem hafa áhrif á gjaldið sem og vaxtabreytingar á markaði og breytingar á fasteignagjöldum. Búsetugjaldið er endurreiknað og leiðrétt m.t.t. breytinga á þeim gjöldum sem mynda það, a.m.k. einu sinni á ári.

Viðhaldshluti gjaldsins er tvískipur, innri sjóður íbúðar og ytri sjóður vegna utanhússviðhalds.

Mánaðarleg búsetugjald er innheimt með rafrænum greiðsluseðli í heimabanka. Gjalddagi er fyrsti hvers mánaðar.

Búseturéttur er uppreiknaður á grundvelli vísitölu neysluverðs við sölu. Búsetugjaldið er fyrir fjármagns- og rekstrarkostnaði fasteignarinnar ásamt þjónustu og er því ekki til eignarmyndunar.

Sjá nánar um ráðstöfun séreignarsparnaðar með því að smella á þennan tengil og fara neðst á þá síðu sem opnast.

Réttur til vaxtabóta fylgir búsetaíbúðum með almennum lánum.

Tekjur og eignir búseturéttarhafa hafa áhrif á upphæð bótanna, sem og vaxtagjöldin sem greidd eru inni í búsetugjaldinu.

Skrifstofan sér um að koma vaxtagjaldaupplýsingum til skattsins og eru þær forprentaðar á skattskýrslu rétthafa.

Umsókn um fyrirframgreiddar vaxtabætur hjá RSK.

Reiknivél RSK vegna vaxtabóta

Hluti búseturéttaríbúða eru fjármagnaðar með lánum frá Íbúðalánasjóði sem ætlaðar eru einstaklingum og fjölskyldum sem eru undir uppgefnum eigna- og tekjumörkum.

Upplýsingar um tekju- og eignarmörk:
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið
Reglugerð nr. 156/2019

Búseturéttaríbúðir sem auglýstar eru með tekjumarki veita rétt til húsnæðisbóta en ekki vaxtabóta.

Upplýsingar um húsnæðisbætur:
www.hms.is

Ef búseturéttarhafi sér fram á að eiga erfitt með að standa skil á greiðslu er mikilvægt að hafa samband við skrifstofu félagsins. Hægt er að greiða inn á greiðslukröfu til að draga úr innheimtukostnaði og dráttarvöxtum.

Innheimtuferli félagsins er samkvæmt samningum, samþykktum, lögum og góðum viðskiptaháttum.

Við hvetjum íbúa eindregið til að standa í skilum til að forðast dráttarvexti og annan innheimtukostnað s.s. lögfræðikostnað.

Athugið að vanskil á mánaðarlegu búsetugjaldi geta leitt til riftunar á samningi.

Ferli vanskila

  • Íbúar fá greiðsluseðil í netbanka með gjalddaga 1. hvers mánaðar.
  • Ef krafan er greidd eftir eindaga þá leggjast dráttarvextir ofan á hana frá gjalddaga.
  • Innheimtuviðvörun er send frá banka og leggst kostnaður vegna hennar á kröfuna.
  • Ef krafan er ekki greidd innan 34 daga frá gjalddaga þá fer hún í milliinnheimtu hjá Motus. Ef hún er enn ógreidd eftir 65 daga þá er hún send í lögfræðiinnheimtu.

Í þessu ferli hefur íbúi í raun tvenn mánaðamót til greiðslu áður en málið fer í milliinnheimtu og þrenn mánaðamót þar til málið fer áfram í lögfræðiinnheimtu.
Ef skuldir búseturéttarhafa aukast og fyrri mánuður er kominn í lögfræðiinnheimtu fer viðbótarskuldin beint til lögfræðiinnheimtu.

Skrifstofa Búseta sér um forprentun á skattframtal búseturéttarhafa.
Upplýsingar sem koma fram eru:

  • Upphæð búseturéttar
  • Vaxtagjöld
  • Eftirstöðvar lána