Búsetufélög

Húsfélög eru starfrækt í húsum Búseta og kallast búsetufélög

Búsetufélögin hafa ákveðnum skyldum að gegna samkvæmt samþykktum Búseta og lögum um húsanæðissamvinnufélög. Allir íbúar hússins eru í búsetufélaginu, þeir kjósa sér stjórn sem sér um dagleg mál og rekstur félagsins. Félagsmenn setja sér húsreglur þar sem fjallað er um umgengni, dýrahald og fleira. Búsetufélagið heldur húsfundi og aðalfund árlega þar sem lagður er fram ársreikningur félagsins. Félagið skilar samþykktum ársreikningi og reikningsyfirlitum til skrifstofu Búseta.

Búsetufélögin bera ábyrgð á þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna samkvæmt samþykktum Búseta og lögum um húsnæðissamvinnufélög. Skal formaður búsetufélags vera tengiliður við Búseta.

Í samþykktum Búseta er tilvísun í lög um fjöleignarhús. Tílvísunin er hugsuð sem leiðbeinandi starfsrammi fyrir búsetufélögin í hverju húsi.

Búseti getur gripið inní ákvarðanir búsetufélags fari það út fyrir starfsramma sinn eða sinnir honum ekki. Í skilningi laganna er fjölbýlishús Búseta ekki fjöleignarhús þar sem eigandinn er einn.

Búsetufélögin kjósa sér stjórn og bera ábyrgð á rekstri og sjóðum þess.

Hússjóður skal skiptast í rekstrarsjóð og framkvæmdasjóð. Búsetufélag má ekki vera rekið með tapi.

Rekstrarsjóður
Búsetufélag ákveður á húsfundi greiðslur í rekstrarsjóð. Rekstrarsjóður þarf að standa straum af kostnaði við daglegan rekstur vegna:

  • Hita og rafmagns
  • Rekstrar á lyftu
  • Þrifa á sameign
  • Lóðaumhirðu
  • Sameiginlegra rýma, salur og þvottahús
  • Bílageymslu

Framkvæmdasjóður
Lagt er til hliðar í framkvæmdasjóð búsetufélagsins til að standa straum af kostnaði vegna viðhalds og endurnýjunar:

  • Gólfefna og málningar í sameign
  • Raflagna í sameign (rofar/tenglar, dyrasímakerfi)
  • Hurða í sameign fyrir utan útidyrahurðir.
  • Reykskynjara og slökkvitækja
  • Lóðar - leita þarf samþykki Búseta fyrir stærri breytingum
  • Bílastæða s.s. merking og málun
  • Lyftu

Athugið að upptalning hér að ofan er ekki tæmandi.

Með því að smella á tengil má fá nánari upplýsingar um viðhald á sameign

Búsetufélag setur sér húsreglur og skal stjórn þess sjá um að þeim sé framfylgt. Gott er að hafa fjöleignarhúsalögin til hliðsjónar þegar reglurnar eru samdar.

Hér má sjá dæmi um húsreglur í fjölbýlishúsi.

Skrifstofa Búseta býður búsetufélögunum þjónustu til að auðvelda þeim umsjón húsanna.

  • Búseti tekur að sér gerð ársreiknings fyrir húsfélög til að tryggja hlutlausa yfirferð og afstemmingu bókhaldsgagna
  • Skrifstofa Búseta leiðbeinir búsetufélögum þegar kemur að hlutverki gjaldkera og vegna útgjalda
  • Viðhaldsfulltrúar Búseta sinna margvíslegum verkefnum er snúa að viðhaldi í sameign

Fyrir ofangreinda þjónustu er greitt samkvæmt verðskrá.

Aðalfund búsetufélags skal halda fyrir lok marsmánaðar. Stjórn þarf að boða fundinn með dagskrárliðum með minnst 8 daga og mest 20 daga fyrirvara.
Á aðalfundi eru fyrir tekin eftirtalin mál:

  • Skýrsla stjórnar og umræður um hana
  • Framlagning ársreikninga til samþykktar og umræður um þá
  • Kosning formanns
  • Kosning annarra stjórnarmanna
  • Kosning varamanna
  • Kosning endurskoðanda og varamanns hans
  • Framlagning rekstrar- og framkvæmdaáætlunar fyrir næsta ár
  • Ákvörðun hússjóðsgjalda
  • Mál sem tiltekin eru í fundarboði
  • Önnur mál

Hér er dæmi um fundarboð og dagskrá

Búsetufélögin halda húsfundi eftir þörfum og tilefnum. Sér stjórn um að boða þá.

Á aðalfundi búsetufélagsins eru ársreikningar þess lagðir fram. Fyrir 15. apríl ár hvert þarf að skila til skrifstofu Búseta ársreikningi auk bókhaldsgagna og reikningsyfirlita.

Búseti leiðbeinir ef á þarf halda vegna útgjalda.

Reglur um dýrahald taka mið af 33. gr. laga um fjöleignarhús. Þegar um er að ræða íbúa sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang þá þarf samþykki 2/3 hluta íbúa.

Undantekning er í húsum Búseta við Einholt og Þverholt þar sem í upphafi var ákveðið að dýrahald væri bannað.