Búseti er húsnæðissamvinnufélag að norrænni fyrirmynd. Ávinningur af rekstri rennur til allra notenda, sem jafnframt eru eigendur, í formi veittrar þjónustu og hagkvæmra gjalda. Samfélagsábyrgð og langtímahugsun eru samofin starfsemi og menningu Búseta. Það er rekið án hagnaðarsjónarmiða og er í eigu félagsmanna hverju sinni.
Markmið félagsins er að byggja, reka og viðhalda íbúðarhúsnæði til langs tíma í þágu félagsmanna. Félagið gætir hagsmuna allra félagsmanna með samfélagsábyrgð og langtímahugsun að leiðarljósi. Siðareglur þessar gilda um alla starfsemi Búseta og dótturfélaga, alla starfsmenn og stjórnendur þess.
Gildi félagsins
Gildi Búseta eru öryggi, framsýni og frelsi.
Lög og reglur
Í starfsemi Búseta er lögð áhersla á að fara ávallt að lögum og viðmiðum um siðferði í viðskiptum. Stjórnendur og starfsmenn þekkja lagaumhverfið sem fyrirtækið starfar í. Félagið setur sér innri reglur sem starfað er eftir.
Áreiðanleiki
Starfsmenn Búseta gæta trúnaðar og eru bundnir þagnarskyldu um hvaðeina sem þeir kunna að verða áskynja í starfi sínu er varðar starfsemi félagsins, félagsmenn, búseturéttarhafa og aðra hagaðila. Starfsmenn Búseta skulu í hvívetna gæta þess að veittar upplýsingar á vegum félagsins séu réttar.
Starfsmenn
Við störf sín ber starfsmönnum Búseta að leitast við að hafa jafnræði og sanngirni að leiðarljósi í öllum samskiptum og viðskiptum. Í samskiptum við alla hagaðila ber starfsmönnum að koma fram af heiðarleika. Virðing, heiðarleiki, sanngirni og háttvísi eru lykilhugtök í samskiptum starfsmanna við viðskiptavini, samstarfsmenn og aðra. Það er með öllu óheimilt að viðhafa áreitni og mismunun á grundvelli kyns, kynþáttar, kynhneigðar, uppruna, litarhafts, trúarbragða, aldurs, fötlunar, hjúskapar- eða fjölskyldustöðu. Starfsmönnum ber að ganga vel um áhöld, vélar og önnur gögn eða tæki í eigu Búseta og ganga skal vel um húsnæði félagsins. í lok vinnudags skulu starfsmenn ganga snyrtilega frá vinnustöðvum og koma trúnaðargögnum úr augsýn. Reykingar eru óheimilar í húsakynnum félagsins. Hið sama á við um ólögleg vímuefni. Verði starfsmaður uppvís að neyslu slíkra efna verður viðkomandi tafarlaust vísað úr starfi. Einkaerindi skulu ekki rekin á vinnutíma nema með samþykki yfirmanns. Þá skal starfsmaður ekki nota búnað Búseta eða dótturfélaga í eigin þágu nema með sérstöku leyfi hverju sinni. Starfsmönnum er óheimilt að stofna til kostnaðar eða skuldbinda Búseta og dótturfélög án samþykkis þar til bærra aðila og með samþykki framkvæmdastjóra. Starfsmenn eru hvattir til að benda á það sem má betur fara í starfsemi félagsins og geta jafnframt lagt fram nafnlausar ábendingar.
Hagsmunaárekstrar
Stjórnendur og starfsmenn skulu aldrei láta einkahagsmuni stangast á við hagsmuni félagsins eða viðskiptavina þess. Starfsmönnum ber að tilkynna mögulega hagsmunaárekstra til næsta yfirmanns. Búseti er félag óháð þátttöku í starfi sem tengist stjórnmálum o.þ.h. Félagið leggur upp úr góðu samstarfi við alla samfélagshópa.