Búseti er húsnæðissamvinnufélag að norrænni fyrirmynd. Slík félög eru í eigu allra félagsmanna og jafnan opin öllum óháð aldri og búsetu.
Ávinningur af rekstri rennur til allra notenda, sem jafnframt eru eigendur, í formi veittrar þjónustu og hagkvæmra gjalda. Samfélagsábyrgð og langtímahugsun eru samofin starfsemi og menningu Búseta.
Félagið var stofnað 1983, á farsæla sögu og byggir á traustum grunni. Það er rekið án hagnaðarsjónarmiða og er í eigu félagsmanna hverju sinni. Félagið á um 1.300 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Búseti starfar að norrænni fyrirmynd og er aðili að NBO sem eru samtök norrænna húsnæðisfélaga. Félagið vinnur að hagsmunum félagsmanna og tryggir umsjón og fjölgun fasteigna með hagkvæmum hætti.
Búseti er þátttökufélag sem ætlað er að þjóna félagsmönnum samkvæmt tilgangi þess.
Við tryggjum félagsmönnum öryggi með fyrirhyggju og heiðarleika, aðhaldsemi og gagnsæi í vinnubrögðum
Við vinnum að hagsmunum félagsmanna í nútíð og framtíð með hagkvæmni, fjölbreytni, gæði og umhverfisvitund að leiðarljósi
Við stuðlum að frelsi íbúa með fjölbreyttu úrvali íbúða, lágum skiptikostnaði, íbúalýðræði og reglulegu viðhaldi eigna
Markmið félagsins er að byggja, reka og viðhalda íbúðarhúsnæði til langs tíma í þágu félagsmanna. Gjöld taka mið af því að lagt sé til hliðar fyrir viðhaldi en innra viðhald er á ábyrgð íbúanna. Félagið gætir hagsmuna allra félagsmanna með samfélagsábyrgð og langtímahugsun að leiðarljósi.
Búseti starfar samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög og samþykktum félagsins sem ákveðnar eru á aðalfundi. Samþykktir geta tekið breytingum á aðalfundi hverju sinni samkvæmt dagskrá þeirra og eru allir félagsmenn bundnir af þeim.