Aðalfundur Búseta var haldinn 17. maí sl. á Grand Hótel. Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf, farið var yfir ársreikning félagsins og fram fór kynning á framtíðarverkefnum félagsins. Jón Ögmundsson stjórnarformaður var endurkjörinn ásamt stjórnarmönnunum Jóni Hreinssyni og Finni Sigurðssyni. Þá var varastjórnarmaðurinn Hildur Mósesdóttir jafnframt endurkjörin.
Í ræðum stjórnarformanns og framkvæmdastjóra kom m.a. fram að árið 2017 var ár umsvifa hjá Búseta. Aldrei í sögu félagsins hafa jafn margar íbúðir verið afhentar nýjum íbúum. Félagsmönnum fjölgaði um tæplega 20% á árinu sem endurspeglar vaxandi eftirspurn. Framkvæmdir í Smiðjuholti og á Ísleifsgötu gengu vel og sala búseturétta einnig. Í ár fagnar Búseti 35 ára afmæli of var á fundinum horft aftur til ársins 2013 þegar félagið hélt upp á 30 ára afmæli sitt og blásið var til sóknar. En félagið hefur vaxið mjög mikið á þessu árabili. Heildartekjur hafa aukist um tæpar 500 milljónir. Verðmæti íbúðarhúsnæðis og lóða hefur aukist um 17 milljarða. Eigið fé Búseta hefur aukist um tæpa 10 milljarða og eiginfjárhlutfallið farið úr 18,6% í 34%. Mikilvægt er að benda á að mikil hækkun á fasteignamati milli ára skýrir afkomutölur að mestu. Þá var einnig nefnt að ekkert félag er án áskorana. Áskoranir Búseta felast sem fyrr meðal annars í hagsveiflum, hækkandi byggingarkostnaði og auknum kostnaði við viðhald og endurbætur. Þá kallar vöxtur Búseta á uppfærslu skipulagsheildarinnar. Því er nú unnið að því að uppfæra verkferla og laga félagið að nútímalegri starfsháttum þar sem upplýsingatækni er betur nýtt og starfsemin straumlínulöguð. Einnig er unnið að því að ramma enn betur inn þær góðu áherslur sem myndaðar hafa verið við þróun fasteignaverkefna undir heitinu „Græn búseta“.
Ágústa Guðmundsdóttir markaðsstjóri Búseta kynnti framtíðarverkefni félagsins. Fram kom á fundinum að framtíðin væri björt og af nægum verkefnum að taka. Að lögð er áhersla á að félagið njóti samlegðaráhrifa við byggingu og rekstur fasteigna. Eftir sem áður er unnið ötullega að stefnu félagsins og fjárfest með hagsmuni og framtíð félagsmanna að leiðarljósi.
Hér má sjá ársskýrslu Búseta 2017 og hvetjum við félagsmenn til að kynna sér hana en þar er að finna ýmsan fróðleik um félagið.