Jákvæðar niðurstöður þjónustukönnunar

Mikil ánægja var með upplýsingaflæði og 90% íbúa sammála um að hafa fengið nægar upplýsingar um Búseta, íbúðina og húsið eftir afhendingu.

Í nóvember afhenti Búseti glæsilegar nýjar íbúðir í nýbyggðum húsum við Hallgerðargötu 24 og 26 í Reykjavík.

Hjá Búseta er okkur mjög umhugað um að veita góða þjónustu og skapa jákvæða upplifun fyrir félagsmenn okkar. Því sendum við íbúunum könnun í desember til að fá innsýn í upplifun þeirra af ýmsum þáttum kaupferilsins.

Margir gáfu sér tíma til að svara. Það kunnum við að meta því það er dýrmætt að fá að heyra skoðun íbúanna. Óhætt er að segja að upplifun íbúa af ferlinu hafi verið jákvæð. Allt frá auglýsingu á íbúðunum að afhendingunni. Spurningarnar snéru m.a. að upplifun af vef Búseta um verkefnið, undirritun samnings, upplýsingaflæði, stofnun búsetufélaga, afhendingu og heimsókn verkefnastjóra.

Mikil ánægja var með upplýsingaflæðið, en 90% íbúa voru sammála um að hafa fengið nægar upplýsingar um Búseta, íbúðina og húsið eftir afhendingu.

Þeir sem svöruðu “ósammála” fengu tækifæri til þess að senda inn nánari útskýringu og fengum við þrjár ábendingar sem munum við nýta til að bæta þjónustu okkar enn frekar.

Að lokum má nefna að mikill meirihluti íbúa myndu mæla með Búseta til vina og vandamanna og mældist NPS meðmælaskorið 90 af 100. Þetta eru niðurstöður sem við erum ótrúlega stolt af.

Þetta eru mjög ánægjulegar niðurstöður og Búseti þakkar öllum þeim sem gáfu sér tíma til að svara könnuninni.