Skóflustunga að 47 nýjum íbúðum sem Búseti húsnæðissamvinnufélag byggir við Eirhöfða 1 á Ártúnshöfða Reykjavíkur var tekin 10. nóvember sl. Sérverk mun sjá um byggingu íbúðanna. Það eru ASK arkitektar sem eiga heiðurinn af hönnun húsanna.
Fyrirhugaðar framkvæmdir á Ártúnshöfðanum munu gjörbreyta ásýnd þessa rótgróna atvinnu- og iðnaðarhverfis. Fjölmenn íbúðabyggð mun rísa á höfðanum þar sem áður hafa verið bílasölur og iðnfyrirtæki. Á byggingarreitnum sem um ræðir verða samtals byggðar 148 íbúðir í fjórum húsum af fyrirtækinu Sérverki. Í þessu nýbyggingarverkefni Búseta byggir félagið fimm íbúðir fyrir Brynju, leigufélag Öryrkjabandalagsins. Íbúðirnar verða fjölbreyttar að stærð og gerð. Um er að ræða sex hæða hús með tveimur stigagöngum sem áætlað er að verði tilbúið til afhendingar um mitt ár 2025. Gert er ráð fyrir að íbúar húss Búseta geti nýtt bílastæði við húsið ásamt bílastæðum í nærliggjandi bílastæðahúsi.
Ártúnshöfði ásamt Elliðaárvogi mynda stærsta uppbyggingarsvæði Reykjavíkur. Í þessum borgarhluta er áætlað að rísi allt að 8.000 íbúðir og að þar muni búa allt að 20.000 íbúar. Á fyrstu uppbyggingarsvæðunum er gert ráð fyrir 3.500 íbúðum, tveimur grunnskólum og einum safnskóla í bland við blómlega þjónustu- og atvinnustarfsemi við Krossamýrartorg. Hryggjarstykki uppbyggingarinnar er meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu sem liggur í gegnum mitt skipulagssvæðið. Krossmýrartorg stendur við Borgarlínuásinn sem liggur í gegnum miðju svæðisins. Við torgið verður menningarhús og fjölbreytt verslun og þjónusta.
Vandað verður til verks frá upphafi til að huga að hringrásahagkerfinu og auka hagkvæmni. Húsið verður klætt að utan með ýmist sléttri áklæðningu eða báraðri. Útihurðar verða úr áli og gluggar úr áli og timbri. Parket og innréttingar í íbúðunum verða vönduð að gerð og endingargóð.
Mjög spennandi áform eru uppi með skipulag Ártúnshöfða og Elliðaárvogs samkvæmt rammaskipulagi svæðisins. Hverfið er stærsta þróunar- og uppbyggingarsvæði Reykjavíkur þar sem iðnaður mun víkja fyrir uppbyggingu íbúðarbyggðar.
Búseti leggur áherslu á að svara þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Hjá félaginu er að finna mikla fjölbreytni í íbúðasamsetningu eftir 40 ára starfsemi. Innan samstæðu Búseta eru reknar í dag um 1.400 íbúðir og eru nú rúmlega 90 íbúðir í byggingu á vegum félagsins. Búseti þjónar breiðum hópi félagsmanna með mismunandi þarfir þegar kemur að búsetuformi.