Föstudaginn 6. maí sl. skrifuðu Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, undir viljayfirlýsingu um enn frekari uppbyggingu húsnæðis fyrir félagsmenn Búseta. Búseti hefur á síðustu árum byggt af miklum krafti og telur heildareignasafn félagsins nú um 1.200 íbúðir.
Borgarráð samþykkti nýlega lóðarvilyrði fyrir 70 íbúðir á tveimur lóðum sem gert er ráð fyrir að verði úthlutað á árunum 2023-2024, annars vegar við Rangársel í Breiðholti og hins vegar í Gufunesi II. Til viðbótar var samþykkt viljayfirlýsing um allt að 265 íbúðir á fjórum lóðum sem gert er ráð fyrir að verði úthlutað á árunum 2025-2028. Meðal annars er um að ræða lóðir á svokölluðum Korpureit og í Bryggjuhverfi III.
Nú stendur yfir á vegum Búseta bygging 20 íbúða að Maríugötu í Urriðaholti í Garðabæ og styttist í að framkvæmdir hefjist á nýbyggingum félagsins í Reykjavík við Hallgerðargötu og Eirhöfða.
Á fyrrgreindum viðburði föstudaginn 6. maí skrifaði borgarstjóri undir lóðavilyrði fyrir um 2.000 íbúðir við samtals fimm óhagnaðardrifin íbúðafélög. Þau sem undirrituðu og eru á meðfylgjandi mynd eru: Böðvar Jónsson framkvæmdastjóri Byggingarfélags námsmanna, Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Félagsbústaða, Árni Stefán Jónsson stjórnarformaður Bjargs, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guðrún Björnsdóttir framkvæmdastýra Félagsstofnunar Stúdenta og Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta.