Fyrir skömmu keypti Búseti 133 nýlegar íbúðir af leigufélaginu Heimstaden og tók þá við gildandi leigusamningum með það í huga að selja íbúðirnar til félagsmanna þegar þeim er skilað af leigjendum. Síðastliðna mánuði hafa leigusamningar runnið út sem og nokkrir leigjendur sagt upp leigu og hafa þær íbúðir verið auglýstar og fengið góðar undirtektir um leið og þær hafa verið færðar yfir í búseturéttarfyrirkomulag.
Íbúðirnar eru fjölbreyttar að stærð og gerð, með vönduðum innréttingum og allar með stæði í lokaðri bílageymslu. Mikil eftirspurn hefur skapast þegar búseturéttir hafa verið auglýstir, enda um skemmtilegar íbúðir að ræða í fallegu og vaxandi hverfi á góðum stað í borginni. Þar sem áður var athafnasvæði fyrirtækisins Björgunar rís nú íbúðabyggð og mannvænt borgarhverfi í góðum tengslum við aðra borgarhluta. Í hverfinu er einstök nálægð við hafið og fallegar gönguleiðir.