Aðalfundur Búseta var haldinn 25. maí sl. á Grand Hótel í Reykjavík. Fram fóru hefðbundin aðalfundarstörf, farið var yfir ársreikning félagsins og haldnar voru nokkrar kynningar, m.a. á nýbyggingarverkefnum.
Jón Ögmundsson stjórnarformaður var endurkjörinn ásamt stjórnarmönnunum Helgu Eglu Björnsdóttur og Ernu Borgnýju Einarsdóttur. Varastjórnarmaðurinn Gunnlaugur Magnússon var jafnframt endurkjörinn. Þá var Hólmgrímur Bjarnason endurkjörinn endurskoðandi Búseta.
Jón Ögmundsson flutti ávarp stjórnar og fór yfir þróun félagsins. Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri kynnti ársuppgjör Búseta og flutti erindi með viðbótarupplýsingum um fjárhag og stöðu félagsins. Hólmgrímur Bjarnason hjá Deloitte, endurskoðandi Búseta, flutti stutt erindi um uppgjör félagsins og varpaði ljósi á styrk þess.
Góðir stjórnarhættir, sjálfbærni og umhverfisvitund eru mikilvægir þættir í starfsemi Búseta. Til að varpa ljósi á þessa þætti á félagið samstarf við fyrirtækið Reitun sem metur sjálfbærnistöðu félaga. Reitun gerir úttekt á útgefendum skuldabréfa og er niðurstaðan meðal þess sem er horft til við skuldabréfaútboð. Búseti hefur viðhaldið góðri einkunn í niðurstöðum Reitunar og verið fyrir ofan meðaltal í samanburði við aðra útgefendur. Finnur Orri Margeirsson frá Reitun kynnti á aðalfundinum framkvæmd úttektarinnar og niðurstöðu ítarlegrar greiningar á starfsemi Búseta.
Búseti fagnar stórafmæli á árinu 2023 og er ætlunin að gera afmælinu góð skil með viðburði síðar á árinu. Páll Gunnlaugsson arkitekt var í fyrstu stjórn félagsins og síðar stjórnarformaður í átta ár. Hann þekkir upphafsárin vel og hefur verið fenginn til að vera formaður afmælisnefndar. Í tilefni stórafmælis verður gefin út bók um Búseta sem er ritstýrt af Páli. Í bókinni verður farið yfir sögu félagsins í máli og myndum. Ásamt Páli Gunnlaugssyni eru í afmælisnefndinni þau Ásdís Ingólfsdóttir og Reynir Ingibjartsson. Auk útgáfu bókar verður settur upp sérstakur vefur með umfjöllun um helstu vörður í sögu félagsins. Þá verður haldinn sérstakur útgáfu- og afmælisviðburður síðar á árinu. Á aðalfundinum gaf Páll Gunnlaugsson okkur innsýn í söguna, bókina og afmælið.
Að lokum fór fram kynning á nýbyggingarverkefni Búseta við Hallgerðargötu í Reykjavík. Hlynur Örn Björgvinsson frá Búseta, verkefnastjóri þess verkefnis flutti kynninguna. Nánari upplýsingar um nýbyggingarverkefnið má finna hér: https://hallgerdargata.buseti.is/
Hlekkur á Árs- og sjálfbærnivef 2022